top of page

GIARDINI PUBLICCHI & TREEMIX REMIX

 

Giardini Publicchi er nafn á myndröð sem ég vann á árunum 1999-2002. Um sextíu verk ef allt er talið.  Um var að ræða tilraun til að gjörnýta myndefni og þjálfa mig í meðferð á litum. Ítalskættaður titillinn kemur frá ljósmynd eða öllu heldur fjögurra fersentimetra parti af ljósmynd sem ég tók í ítölskum almenningsgarði upp í laufskrúð trjánna.  Hugmyndin var að mála eins margar útgáfur sem stæðust listrænann metnað minn af sama myndefninu, aðeins litasamsetningin breyttist.  Niðurstaðan var að möguleikarnir væru ótakmarkaðir. Takmörkunin fólst í úthaldi listamannsins.  Flest verkin voru 20x20cm en verkin 5 sem hér eru eru stærri og til kemur leikur með speglunina og þéttleika vatnslitarins sem ég notaði í myndaröðina.

 

Bleikt Mix er fyrsta verkið í myndröð sem hlaut heitið Treemix-Remix.  Þessi myndröð markar ákveðin tímamót hjá mér en við vinnuna á verkunum tekur tölvan við vatnslitablokkinni sem skissubók.  Myndaröðin er einnig skýrt dæmi um þá nálgun hjá mér að einangra stakt náttúrufyrirbrigði, skoða það náið og nota það sem uppistöðu í málverk.  

Tilurð verkanna er sú að á göngu minni um Norðurmýrina í Reykjavík í maí 2002 tek ég eftir langþráðu,  skærgrænu brumi trjánna eftir langan gráann vetur.  Það sem vakti  eftirtekt mína er kraftmikið formið eða hrynjandinn sem brumið myndar, einskonar frosnar sprengingar. Líf að kvikna með sjónrænum hvelli,  hljóðlaus sprenging. Tengingin við Giardini Publicchi verkin er augljós en vinnuaðferðin og miðillinn annar.

 

Það var ekki einfalt að myndgera hljómfallið sem ég sá í trjánum, ljósmyndirnar sem ég tók voru ekki í fókus og eðli þess sem ég var að reyna að fanga of kvikt. Þetta varð til þess að ég tók tölvuna og hið alræmda photoshop forrit í þjónustu mína. Með tölvu og réttu forriti tókst mér að einangra lífsprengingarnar dulmögnuðu og úr varð sýningin og myndaröðin Treemix-Remix.

bottom of page