top of page

HÉÐINSFJÖRÐUR

 

Mýri 1 er fyrsta olíumálverkið sem ég flokka sem Héðinsfjarðarverk. Frá árinu 2009 á vaxandi hluti verka minna  uppruna sinn í Héðinsfirði, eyðifirði sem liggur á milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar á Tröllaskaga.  Ég geng aftur og aftur fram dalinn. Markmiðið er tengslamyndun við staðinn í gegnum athöfnina að mála. Ég fer í  ljósmyndaferðir og algleymi veiðimannsins lýsir hugarástandi mínu best. Öll skynfæri næm og virk. Úrvinnslan fer svo fram í hægfara nákvæmnisvinnu á vinnustofunni þar sem hvert strá er gaumgæft og hver vatnsdropi skoðaður.  Hvert smáatriði andartaksins sem fangað var skoðað og íhugað og .... málað.

 

Héðinsfjörður er ákaflega snjóþungur staður og snjóa leysir seint.  Engu að síður er fjörðurinn mjög  gróðursæll.  Sumarið er stutt, vaxtar og lífmagn sumarsins er mikið og kröftugt.  Tíminn er skammur.  Staðurinn er heimur í hnotskurn þar sem hringrás lífsins opinberast í gróðri og dýrum fjarðarins.  Ég öðlast yfirsýn og tilfinningu fyrir heild. Allt gerist hratt og er þrungið líðandi stund. Algleymi. Ég gaumgæfi íbúa mýrarinnar, horfi svo stíft og ákaft að segja má að ég sé farinn að hlusta á blómin og vatnið.  Tengiliðurinn er málverkið, tugþúsunda ára gömul aðferð mannsins við að tala við náttúruna.

 

 Vaxandi meðvitund mín um hverfulleikann sem loftlagsbreitingar valda hafa litað verk mín úr firðinum og endurspeglast í titlum sýninga: Veðra Von 2016, Mýrarskuggar 2018, Útvarp Mýri 2019-20, Eftir Regnið 2020 og Fram fjörðinn seint um haust 2023. 

Ég lít á vinnu mína í Héðinsfirði sem tilraun til þess að hlusta á náttúruna, leita frétta og miðla mikilvægum skilaboðum.  Ég er með svæðið í gæslu og fylgist með breytingum, skoða þær og skrái í verkum mínum.  

 

Í hverri ferð í Héðinsfjörð er eitthvað sem kallar á mig. Þegar ég fer á ég meiru ólokið en þegar ég kom.

bottom of page