top of page

Í MINNINGU ROTHKO

 

Árið 2002 bauðst mér að sýna í fordyri Hallgrímskirkju.  Þetta var mér töluverð áskorun þar sem kirkja er flest annað en hlutlaus hvítur kubbur (white cube). Rýmið þrungið sögu, tilfinningu og spurningum.  Annar hópur en venjulega sækir myndlistarsýningar mundi sjá verkin.  

 

Aðstæðurnar komu af stað hugsanaferli og vinnu sem reyndist mér bæði gjöful og mikilvæg. 

Heilagleiki var orð sem kom upp í hugann og ég áttaði mig á því að  stærri spurningar lífsins um hin hinnstu rök og stærra samhengið höfðu ekki verið ofarlega á baugi í samtímalist  að afstrakt expressionistum sjötta áratugsins gengnum. Hvað hafði orðið að leitinni að hinu stóra og háleita?  Mér virtist myndlist dagsins þvingandi jarðbundin. Stórar spurningar afgreiddar sem óviðeigandi tilfinningarsemi. 

Ég ákvað því að minnast uppáhalds afstrakt-expressionistans míns, Mark Rothko, sem féll fyrir eigin hendi eftir kraftmikla glímu við stóru spurningarnar.  Verkin sem eftir hann stóðu eru eftir allt saman eins og opnar dyr inn í andlegar víddir.

 

Titill sýningarinnar, Í minningu Rothko og leitarinnar að hinu ósegjanlega, útskýrir hvað ég var að pæla. 

 

Verkin vann ég á þann hátt að ég endurgerði nokkur verk eftir Rothko.  Ég gerði þó ekki óbreyttar eftirmyndir heldur braut ég litafletina hans niður í doppur líkt og popparinn Larry Poons eða Roy Lichtenstein hefðu komist í verk Rothkos og „poppað þau upp”.  Þetta gerði ég í tregafullu ástandi þar sem meðferðin á verkum Rothko undirstrikuðu þá tilfinningu mína að nálgun hans væri ómöguleg í samtímanum, málverkið þætti ekki lengur tækt til að spurja grundvallarspurninga af neinu tagi.

Niðurstaða mín af tilrauninni kom mér í opna skjöldu.  Verkin sem urðu til urðu fyrir mér allt annað en háðuglegar eða tvíræðar athugasemdir um tilfinningasemi heldur verk sem önduðu og geisluðu af lífi og merkingu. Mér fannst andinn í verkum Rothkos hafa lifað af þessa grófu meðferð.  Málverkið átti erindi og var lifandi öflugt fyrirbæri sem gæti á gagnvirkan hátt spurt mikilvægra spurninga um mikilvæga hluti.

Það er skemmst frá því að segja að þetta varð mér opinberun og hálfgerð frelsun, trú mín, á málverkið varð önnur og meiri. Takk Rothko!……. fyrir lánið.

bottom of page