top of page

STAUMVÖTN & VATNSFLETIR

 

Fyrstu tilraunir mínar við að myndgera vatnsyfirborð gerði ég á námsárum mínum í Frakklandi 1991-1994.  Þar var vatnið þó alltaf aðeins hluti af heild en ekki í aðalhlutverki en oft  í stóru aukahlutverki.   Vatnsflöturinn verður ráðandi myndefni hjá mér um tíu ára skeið. Yfirborð straumvatns, stöðuvatna og sjávar.

 

Vatnsflötur er magnað myndefni fyrir málverk.  Það er áhugaverð þversögn fólgin í því að mála vatn.  Vatnið er „glært ekkert“ sjónrænt séð en mynd af vatni sýnir það sem speglast í vatninu eða sést í gegnum það. Táknmynd um listina. Það er ekki verkið sem skiptir máli heldur það hvernig við speglum okkur í því og hvað við sjáum í gegnum það.  Hugmynd franska málarans Paul Cézanne um málverkið sem „hliðstæðann veruleika“ endurspeglast  í athöfninni að mála vatn. 

Vinnan með vatnið er margræð. Hún er eltingarleikur við síhreyfinguna eða fluxið í heiminum.  Á  landamærum frumaflanna,  vatns, lofts, ljóss og jarðar má nálgast upplýsingar um eðli fyrirbærisins.  Vatnsyfirborðið skilur á milli tveggja heima en dulmagn slíkra landamæra er mikið.  Þar má leita svara við flóknum spurningum og ferðast milli vídda.  Uppröðun hlutanna í heiminum, hrynjandin opinberar sig oft í straumröstum og iðukasti rennandi vatns.

 

”Að vinna upp úr náttúrunni er einskonar bæn” er haft eftir trúleysingjanum Matisse.  Náttúruverkin mín má skilgreina sem slík. Þau eru lofgjörð.  Athöfnin að mála er ritual, hvorki trúarleg né vísindaleg og má frekar lýsa sem samtali en rannsókn, tilraun til að hlusta og nema frekar en að meðtaka áreynslulaust.  

 

Flest straumvatnsverkin eru í natúralískum stíl.  Í sumum verkanna kýs ég þó að skipta þeim upp í sterka litafleti. Á þann hátt er hrynjandi straumvatnsins dreginn fram þar sem tilraun er gerð til að fanga undirliggjandi kerfi náttúrunnar. Uppröðun hlutanna í heiminum.

bottom of page