top of page

360 DAGAR Í GRASAGARÐINUM

 

Ljósmyndaverkið 360 dagar í grasagarðinum  er óvenjulegt á ferli mínum.  Það var gert að í tilefni 400 ára fæðingarafmælis Hallgríms Péturssonar að tilstuðlan Listvinafélags Hallgrímskirkju og fyrst sýnt í fordyri kirkjunnar árið 2014. Verkið vann ég í Brighton á suðurströnd Englands á rétt tæpu ári eins og titillinn vísar til. Kveikjan að verkinu var eiginhandarrit Hallgríms af hans þekktasta verki, Passíusálmunum, eintakið sem hann gaf Ragnheiði biskupsdóttur þegar hún lá banaleguna.

 

Í verkinu tengi ég saman jurtagarðinn Getsemane, sögusvið fyrstu 6 passíusálmanna og gróðursælann bakgarðinn við 79 Colemanstreet þar sem við fjölskyldan bjuggum.  Eftir að hafa gert tilraunir til að vatnslita upp úr eiginhandarriti Hallgríms á þykkar, breskar vatnslitaarkir setti ég örk af pappírnum góða út í garð og kallaði Hallgrím.

Pappírinn veðraðist, var étinn af skordýrum og eyddist svo smátt og smátt á 360 dögum.  Hallgímur í pappírsformi varð smátt og smátt hluti af fjölskyldulífinu í Kolamannastræti 79.  Öðru hverju þegar lauf og óhreinindi huldu Hallgrím tókum við hann inn í hlýjuna og böðuðum hann í eldhúsvaskinum, hlúðum svolítið að honum og hægðum þannig á rotnunarferlinu. Svo var hann settur á sinn stað aftur. Ég myndaði ferlið og aðra “atburði” í garðinum, vöxt og hrörnun, og setti saman í verk. Alls urðu til 80 ljósmyndir með trúararlegum og tilvistarlegum vísunum.

Ég tengi vegferð pappírsins við ævi Hallgríms, holdsveikina, en líka Passíusálmana og píslarsöguna sem og hringrás náttúrunnar. Eilífðina.

bottom of page