360 DAGAR Í GRASAGARÐINUM
Ljósmyndaverkið 360 dagar í grasagarðinum er óvenjulegt á ferli mínum. Það var gert að í tilefni 400 ára fæðingarafmælis Hallgríms Péturssonar að tilstuðlan Listvinafélags Hallgrímskirkju og fyrst sýnt í fordyri kirkjunnar árið 2014. Verkið vann ég í Brighton á suðurströnd Englands á rétt tæpu ári eins og titillinn vísar til. Kveikjan að verkinu var eiginhandarrit Hallgríms af hans þekktasta verki, Passíusálmunum, eintakið sem hann gaf Ragnheiði biskupsdóttur þegar hún lá banaleguna.
Í verkinu tengi ég saman jurtagarðinn Getsemane, sögusvið fyrstu 6 passíusálmanna og gróðursælann bakgarðinn við 79 Colemanstreet þar sem við fjölskyldan bjuggum. Eftir að hafa gert tilraunir til að vatnslita upp úr eiginhandarriti Hallgríms á þykkar, breskar vatnslitaarkir setti ég örk af pappírnum góða út í garð og kallaði Hallgrím.
Pappírinn veðraðist, var étinn af skordýrum og eyddist svo smátt og smátt á 360 dögum. Hallgímur í pappírsformi varð smátt og smátt hluti af fjölskyldulífinu í Kolamannastræti 79. Öðru hverju þegar lauf og óhreinindi huldu Hallgrím tókum við hann inn í hlýjuna og böðuðum hann í eldhúsvaskinum, hlúðum svolítið að honum og hægðum þannig á rotnunarferlinu. Svo var hann settur á sinn stað aftur. Ég myndaði ferlið og aðra “atburði” í garðinum, vöxt og hrörnun, og setti saman í verk. Alls urðu til 80 ljósmyndir með trúararlegum og tilvistarlegum vísunum.
Ég tengi vegferð pappírsins við ævi Hallgríms, holdsveikina, en líka Passíusálmana og píslarsöguna sem og hringrás náttúrunnar. Eilífðina.