top of page

LITIR KVARANS

Árið 2016 áskotnuðust mér uppþornaðir þekjulitir (gouache) í talsverðu magni. Litina hafði dagað uppi í geymslum Myndlistaskólans í Reykjavík og þeir orðið að steini að hætti trölla.  Litirnir voru í eigu Karls Kvarans listmálara en hann andaðist 1989.  Þeir höfðu því þvælst um geymslur skólans í meira en 30 ár.  

 

Karl Kvaran var strangflatarmálari og þekjulitir voru í miklum metum hjá þeim listamönnum sem aðhylltust þetta form málverks,  líklega vegna þess eðlis þekjulitanna að vera dauðmattir og varpa  því engri glýju né glampa á myndflötinn og tryggðu þannig  ótruflað, milliliðalaust samband litar og áhorfanda.

 

Karl Kvaran var frábær málari og notaði aðeins úrvals efni og vöktu litirnir því strax sérstakan áhuga minn.  

 

Litirnir eru frá þremur framleiðendum og gefur það ákveðnar vísbendingar um aldur litanna.  Nýlegustu túburnar eru frá hinum þekkta franska framleiðanda Lefranc & Bourgeois en minni og lúnari túbur voru merktar Lefranc einum. Litaframleiðendurnir Lefranc og Bourgeois  sameinuðu krafta sína árið 1965 svo Lefranc litirnir eru allavega fimmtíu ára gamlir. Sínu uppþornaðastir og verst farnir voru þó litir  frá enska framleiðandanum Newman´s en það fyrirtæki lagði upp laupana 1959.  Stórkostlegir, bjartir og kraftmiklir litir.

 

Þegar ég fór að skoða litina betur varð ég mjög spenntur því marga af þeim litatónum sem túburnar innihéldu hafði ég aldrei séð áður.  Bleu Azural, Bleu Pervenche, Bleu Espace.  Vert Mousse, Alizarine Green og Yellow og Vermillion Orange eru til dæmis litir sem ekki er auðvelt  að finna lengur. 

 

Verkefnið var því að frelsa þessa gleymdu liti úr steinrunnu ástandi sínu og hleypa þeim út í kosmósið. 

 

Ég beitti ýmsum aðferðum við að koma litunum aftur í fljótandi form, reyndi að mála þá og mylja milli steina og þungra málmplatna, setti í öfluga matvinnsluvél,  en drýgst hafa dugað “tíminn og vatnið”.  Með öðrum orðum að láta litina liggja lengi í krukku með vatni og hrista duglega og reglulega. 


Ég hef unnið fjórar myndraðir með litunum hans Karls:  Í minningu Kvarans þar sem ég nota litina til að mála “mýrarskuggamyndir” og Tíminn og vatnið, 14 bláir Kvarans og Allir litir Kvarans  sem eru seríur röndóttra monocromemynda. Rendurnar gegna því hlutverki að draga fram tilfinningu fyrir tíma.

bottom of page