STANMER SKÓGUR OG ERMARSUND
Sjórinn við Stokksnes og Ermarsundsmyndirnar málaði ég í Brighton á Englandi. Veturinn 2013-14 var óvenju stormasamur við suðurströnd Englands og mikið um flóð og veðurtengd vandræði. Í bakgarðinum brumaði kirsuberjatré í janúar. Þarna við suðurströnd Englands varð tilfinning fyrir breytingum á náttúrunni fyrst að meðvitund. Þetta kemur fram í brim eða sjávarlöður myndunum mínum. Þær virðast við fyrstu sýn naturalískar, nálgast jafnvel ljósmyndaraunsæi en þegar þær eru skoðaðar nánar kemur ákveðin stílfæring í ljós. Allar línur tengjast og löðrið myndar net yfir sjávarflötinn. Sömu stökkbreytingu má sjá í skógarmyndum sem ég málaði frá Stanmer skógi skammt frá Brighton. Verkin sem ég málaði á Englandi urðu uppistaðan í sýningu minni í Veðra von Hverfisgalleríi.